Tjakkur. Felgulykill. Nú fyrst tók hann eftir því að einn hjólbarðinn var marflatur.
Konan dröslaði varadekkinu upp úr skottinu og rúllaði því á undan sér fram fyrir bílinn, hallaði því upp að grillinu og gerði kómíska tilraun til að losna við óhreinindin af höndunum með því að hrista þær og klappa saman lófunum.
Dugleg, tautaði hann með augun tárvot yfir lauknum þegar hann sá fumlausar aðfarirnar. Hún virtist vita hvað hún var að gera, þótt hún væri í mjallahvítri ullarkápu og tildurslegum skóm við gallabuxurnar. Hjólkoppurinn af í einu handtaki, svona já, felgulykillinn á loft, losa um fyrstu róna.
Síðast þegar hann hafði sjálfur þurft að standa í þessu hafði hann byrjað á því að tjakka bílinn upp en þurfti síðan að tjakka hann niður aftur til að geta losað rærnar. Skömmin yfir því risti ekki mjög djúpt, káfaði hvorki upp á karlmennsku hans né verksvit; hann hafði bara verið utan við sig.
Konan spyrnti í felgulykilinn en róin haggaðist ekki. Hún steig upp á hann eins og hann væri stigarim, studdi báðum höndum á þakið á bílnum og fjaðraði upp og niður af ákveðni en ekkert gerðist. Hún reyndi við næstu ró fyrir ofan en allt fór á sama veg svo að hún fleygði felgulyklinum í mölina, tyllti olnbogunum á bílþakið og fól andlitið í höndum sér. Hann fékk á tilfinninguna að hún myndi bresta í grát og slökkti dræmlega undir kjötinu áður en hann stikaði í átt að dyrunum, aðeins of hratt því nú fann hann til svima. Á leiðinni einsetti hann sér að vera vingjarnlegur.
Er allt fast? spurði hann og þótt röddin væri hörkulegri en hann hafði ætlað sér brosti hún skökku brosi.
Já, andvarpaði hún og af andvarpinu og signum öxlunum að dæma var hún næstum jafn þreytt og hann. Hún var með krákufætur við augnkrókana, fasta áhyggjuhrukku milli augnanna og viðkvæmnislegan munn með spékopp öðrum megin. Ég hélt það hefði verið lán í óláni að lenda í þessu fyrir utan bílaverkstæðið, en ég sé að hér er ekki lengur neitt verkstæði, sagði hún og horfði yfir snyrtilega grasflötina þar sem ekki var nein sina svo heitið gæti og nýsprottið grasið var enn grænna en sveitirnar í kring.
Þeir fluttu í stærra hús hér úti við veg fyrir tíu árum, sagði hann og beygði sig eftir felgulyklinum, skorðaði hann utan um róna og lagðist á af fullum þunga en ekkert gerðist. Hann hló vantrúaður. Hver ætli hafi hert þetta? tautaði hann.
Pabbi, svaraði hún og spékoppurinn dýpkaði um leið og skugga brá á andlitið. Hann var leigubílstjóri og Evrópumeistari í bekkpressu í öldungaflokki.
Því get ég trúað, sagði hann og mældi út búkonulegan vöxt hennar. Það vantaði greinilega ekki kjöt á gerðarleg beinin í þessari fjölskyldu. Leit aftur framan í hana og langaði að virða sorgarbrosið betur fyrir sér en þá var það farið og svipur hennar orðinn tómlegur.
Hann gat ekki haft augun af höndunum á henni. Án þess að koma því almennilega fyrir sig hvað væri öðruvísi við þær. Og úlnliðirnir. Þeir voru flóknir. Kvikir. Haganleg smíð ef svo mátti segja og hann minntist blinda tónlistarmannsins – hvað hét hann aftur? Ray Charles, var það ekki? – sem þreifaði á úlnliðum kvenna til að athuga hvort þær væru fallegar. Snjallt hjá honum. Það hefði ekki beinlínis verið herramannslegt að vaða með lúkurnar í andlit þeirra áður en hann spurði þær að nafni. Hvað ætli Ray hefði hugsað ef hann hefði fengið að fara höndum um þessa sterklegu úlnliði?
Hún stakk höndunum í kápuvasana og horfði á hann með andlitið undirlagt af svipbrigðum sem hann gat engan veginn lesið í.
Hvað? sagði hún.
Ekkert, sagði hann og horfði á fæturna á sér sem virtust langt í burtu, umluktir móðu. Konan í hvítu kápunni þreytti hann með því einu að vera til – hann var ekki í ástandi til að eiga við þetta. Ég er með litla sleggju inni í geymslu, sagði hann. Ég skal gera þetta fyrir þig þegar ég er búinn að fá mér að éta. Ég hef ekki fengið neitt frá því í morgun eða gærkvöldi.
Hún lyfti brúnum og horfði í kringum sig eins og til að skima eftir öðrum úrræðum. En við það rofaði til í höfðinu á honum og hann bætti við, með allri þeirri hlýju sem hann átti til en óttaðist að hljómaði meira eins og háð eða bæld óþolinmæði: Ef þú vildir vera svo væn að sitja á stól í eldhúsinu hjá mér á meðan skal ég lofa því að þú verður ferðafær eftir einn og hálfan tíma.
Hún fylgdi honum hikandi og hann var henni þakklátur fyrir að hlífa honum við látalátum, undanbrögðum og afsökunum. Þetta var best svona. Hann vildi ekki að hún færi strax, því þótt hann væri hvíldarþurfi fann hann líka átakanlega til þess að hafa ekki séð framan í aðra manneskju dögum saman.
Hann langaði að horfa á andlit sem hreyfðist, það skipti ekki máli þótt hún hefði ekkert að segja eða væri uppfull af óáhugaverðum frösum, hann hafði hvort sem var ekki orku til að hlusta eða svara af viti.
Konan lagði kápuna yfir stólbak og settist þunglega á stólinn við hliðina. Hún horfði í kringum sig en ekki af neinum sérstökum áhuga, talaði lítið og hreyfði sig varlega, sjálfsagt af skilningi á því að hann væri þreyttur og svangur. Hann langaði ekki að láta sýna sér skilning; hann fékk hroll bara við tilhugsunina um skilningsríkar konur. Milljónir og aftur milljónir skilningsríkra kvenna um allan heim sem hugsuðu fátt og sögðu enn minna.
Hugsun hans var ótemja og hann gat ekki annað en furðað sig á að hún var ekki í neinu samræmi við hann sjálfan eða þá hugmynd sem hann hafði um sjálfan sig. Það mátti halda að hann væri með útvarpsviðtæki í hausnum og óprúttnir náungar væru að skipta sér af því hvað þar færi fram. Hann kveikti aftur undir pönnunni, hristi yfir henni nokkra kryddstauka og lagði á borð fyrir þau bæði, án þess að hafa um það of mörg orð að gestinum væri velkomið að snæða með honum. Hann trúði ekki á orðmargar útskýringar, þær fóru alltaf út í þvætting, og hann trúði ekki heldur á að hjálpa fólki við að taka ákvarðanir. Ef manneskjan var of feimin til að fá sér á diskinn eða of kurteis til að láta matinn ósnertan, þá hún um það.