Hakkið var gegnsteikt en laukurinn enn hálfhrár. Það gerði ekki mikið til. Sveinn opnaði glasaskápinn og eftir stutta umhugsun ákvað hann að láta vínglösin eiga sig og notast í staðinn við lítil vatnsglös undir vínið. Annars gæti hún haldið að hann væri með óraunhæfar rómantískar hugmyndir um borðhaldið. Hann hóf á loft hálffulla rauðvínsflösku og sagði: Ég vona að þér þyki þetta ekki óviðkunnanlegt, ég er vanur að hafa vín með kjötinu. Hún hristi höfuðið og það var hálfgerð slikja yfir augum hennar. Honum var óhætt að slaka á; hún var greinilega ekki ein af þeim sem lögðu táknræna merkingu í alla skapaða hluti. Hún virtist ekki einu sinni fylgjast almennilega með því sem gekk á í kringum hana.
Hvað var hún annars að hugsa? Hann vissi vel að þreytan gerði að verkum að hann leit út fyrir að vera drukkinn. Hikaði hún ekki við að fara með fyllirafti inn á heimili hans?
Hún hellti úr flöskunni í bæði glösin og fékk sér af pönnunni. Það var það síðasta sem hann sá til hennar áður en hann gleymdi næstum að hún var þarna, því það útheimti alla slítandi athygli hans að skera kartöflurnar í tvennt og raða smjörklípum á sléttu fletina. Salt. Ó, Guð! Hann táraðist af því að finna bragðið af kartöflum með salti og smjöri.
Næst þegar hann leit upp hafði hún lokið úr glasinu og var að fylla það aftur. Já, sko! hugsaði hann og nú hlaut að hafa slaknað aðeins á taugunum því hann gladdist af einlægni yfir því að ókunnug kona sæti til borðs með honum þótt þeim væri báðum svona stirt um málbeinið.
Ég vissi að ég myndi ekki geta losað um boltana, sagði hún og leit snöggt í augun á honum áður en hún beindi sjónum að gafflinum í hendi hans. Þess vegna var ég að vona að verkstæðið væri hér ennþá og strákarnir væru ekki allir farnir heim.
Hún hristi höfuðið og bætti við: Þegar pabbi skipti um ljósaperu eyðilagði hann oft bæði stæðið og peruna og stundum sleit hann húna af hurðum. Ég held að hann hafi gert þetta viljandi til að við segðum um hann svona sögur, sagði hún og hló og hann gat ekki annað en hlegið með henni. Aðallega samt af því að hún var orðin rjóð á eyrunum af víninu.
Er hann þá látinn? spurði hann.
Við jörðuðum hann í síðustu viku, svaraði hún. Það var hjartaáfall. Hann var hættur að keyra en hélt áfram að lyfta þótt ég og læknirinn hans værum búin að biðja hann að láta lóðin eiga sig.
Ónotatilfinningin sem Sveinn hafði dögum saman reynt að brynja sig gegn lagðist á hann af fullum þunga. Hann gat ekki annað en leitt hugann að þessum sem stytti sér aldur um daginn. Og nú þegar ókunnug kona talaði um dauða föður sins fékk hann á tilfinninguna að allt í kringum hann hryndu karlarnir eins og flugur. Eins og krumla dauðans væri að gæla við hann sjálfan, pota í rifbeinin á honum til að komast að því hvort hann væri nógu feitur til að það tæki því að slátra honum. Sem var annars fremur langsótt af því að hvor þessara manna fyrir sig hafði verið nógu gamall til að vera faðir hans.
Sjálfsmorðingjanum hafði með dauða sínum tekist að þröngva sér inn í líf hans. Sveinn hafði neitað að tala við blaðakonuna en samt hafði hún birt mynd af honum með greininni og þannig látið í það skína að hann bæri óbeina ábyrgð á harmleiknum.
Var ekki allt eins hægt að kenna um þeim sem seldu honum sjónvarpið? Ef maðurinn var veikur í höfðinu og ruglaði saman ímyndun og veruleika var ekki Sveini um að kenna, hvað þá dúkkunni sem samkvæmt greininni í sorpritinu hafði fylgt honum í dauðann. Maðurinn hafði víst rifið hausinn af henni, skorið af henni brjóstin og rist skinnið á henni í hengla áður en hann skaut sig með gamalli kindabyssu.
Sveinn hafði gert sitt besta til að leiða stúlkunni fyrir sjónir hversu ósmekklegt það væri yfirhöfuð að fjalla um þetta. Að sjálfsvíg gamals manns væri ekki frétt, hversu mörg kynlífshjálpartæki sem hann ætti inni í skáp og sama þótt hann kysi að eyðileggja eitthvað af eigum sínum áður en hann horfði í byssuhlaupið. En hún hafði ekki hlustað á hann, áköf að sanna sig í nýju vinnunni sinni, jafn heilluð af stelpunum hans og allir aðrir. Og á sama hátt og flestir fundu sig knúna til að breiða yfir áhuga sinn með vandlætingu, réttlætti hún hnýsni sína með því að láta eins og um væri að ræða eitthvað sem henni bæri siðferðileg blaðamannsskylda til að draga fram í dagsljósið.
Hann virti betur fyrir sér konuna sem sat á móti honum við borðið. Hún leit út eins og landnámskonur voru oftast teiknaðar; stór kringlótt augu og stór kringlótt brjóst sem hvíldu örugg á þykkum og traustum búk og fótleggirnir eins og tvær öndvegissúlur. Hann teygði sig í aðra flösku án þess að standa upp og opnaði hana svo lítið bar á. Hann langaði að sjá hana fulla. Ef hún vildi keyra heim í því ástandi var ekki beinlínis við hann að sakast.
Nei annars, það var ekki rétt. Hann bar vissa ábyrgð á henni því hún var í ójafnvægi, fallega kyrrlátu ójafnvægi að vísu sem átti ekkert skylt við móðursýki, og hún sat á stól heima hjá honum og hann var viljandi að hella upp á hana þótt hún væri á bíl og hefði næstum verið farin að tárfella á bílþakið hér rétt áðan. Hann langaði að vita meira um dauðann og sárið sem hann hafði greinilega skilið eftir sig. Hann vildi að hún segði eitthvað ljótt, gerði sig að fífli, afmyndaðist af tilfinningasemi. Það var ekki til nein önnur leið til að fá útrás fyrir eitthvað sem hann vissi ekki hvað var.